Tilkynning vegna COVID-19.
miðvikudagurinn 21. október 2020

Niðurstaða mótefnamælinga meðal skipverja á frystiskipinu, Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270, liggja nú fyrir. Níu skipverjar hafa jafnað sig á veikindunum, eru með mótefni og því frjálsir ferða sinna. Þrettán eru smitaðir og þurfa að vera í einangrun. Þrír eru hvorki smitaðir né með mótefni og þurfa því að sæta sóttkví. Fimm fóru í farsóttarhús í nágrenni Ísafjarðar sem sett hafði verður upp af þessu tilefni. Aðrir fara til síns heima eða í íbúðir á eigin vegum. Tveir verða eftir um borð í skipinu.

Fyrirtækið vill koma því á framfæri að fljótlega eftir að  bera fór á flensueinkennum meðal áhafnar var haft samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ekki þótti ástæða til að kalla skipið  til hafnar á þeim tíma. Eftir 3 vikur á veiðum var ljóst í kjölfar skimunar allra áhafnarmeðlima að COVID-19 smit var um borð, var skipinu þá umsvifalaust snúið til hafnar. Í ljósi þeirrar vitneskju sem nú liggur fyrir hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar og setja alla áhöfnina í skimun.  

Í lestum skipsins eru um 213 tonn af frystum afurðum. Matvælastofnun (MAST) gefur að öllu jöfnu út heilbrigðisvottorð fyrir afurðir sem fluttar eru út til ríkja utan EES. Innan EES er unnið í samræmi við evrópska matvælalöggjöf. Samkvæmt upplýsingum frá MAST er ekkert sem bendir til þess að COVID-19 geti borist með matvælum og er það samkvæmt áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eru sama sinnis og hafa gefið út leiðbeiningar um COVID-19 og matvæli, sjá nánar hér.

Á næstu dögum verður skipið sótthreinsað með viðeigandi efnum í samræmi við viðurkennda verkferla þar til bærra aðila.

Til baka