Tíðindi

föstudagurinn 21. október 2022

HG er framúrskarandi fyrirtæki 2022

Á hverju ári vinnur Creditinfo greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangurinn. Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra. Til þess að teljast framúrskarandi þurfa fyrirtækin að uppfylla ströng skilyrði sem eru listuð hér fyrir neðan:

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
  • Ársreikningi skal skilað á réttum tíma lögum samkvæmt
  • Hefur skilað ársreikningi til RSK síðustu þrjú ár
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Rekstrartekjur að lágmaarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
  • Fyrirtækið með rekstrartekjur yfir 10 milljarða þurfa að fylla út spurningalista um sjálfbærni
  • Framkvæmdastjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár
  • Ársniðurstaða jákvæð síðustu þrjú ár
  • Eigignfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir síðustu þrjú ár

Hraðfrystihúsið Gunnvör er stolt að vera á þessum lista og þökkum við okkar frábæra starfsfólki og góðu viðskiptavinum. 

fimmtudagurinn 20. október 2022

HG veitt heiðursslaufa Sigurvonar

Hraðfrystihúsinu Gunnvör var veitt heiðursslaufa krabbameinsfélagsins Sigurvonar síðastliðin þriðjudag 18. október. Meginmarkmið Sigurvonar er að styðja fjárhagslega við krabbameinsgreinda einstaklinga sem alla jafna þurfa að sækja meðferðir utan heimabyggðar sem hefur mikinn kostnað í för með sér. Með veitingunni vildu aðstandendur Sigurvonar þakka HG fyrir dyggilegan fjárstuðning til fjölda ára. 

Þeir sem vilja sýna Sigurvon stuðning er bent á að hægt er að ganga í félagið og geiða hógvært ársgjald. 

miðvikudagurinn 21. september 2022

Útgerð bv. Stefnis ÍS 28 hætt

Úthlutað aflamark í þorski hefur dregist saman um 23% á síðustu tveimur fiskveiðiárum og dragast  aflaheimildir H-G hf. saman um 1.200 tonn við það. Einnig hefur orðið veruleg skerðing  í úthlutuðu aflamarki í gullkarfa, sem hefur verið mikilvæg tegund í útgerð Stefnis.  Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að hætta útgerð Stefnis.  Með þeirri aðgerð mun rekstrargrundvöllur annarra skipa félagsins styrkjast.

Ákveðið hefur verið að segja áhöfn skipsins, sem telur 13 manns, upp frá og með áramótum.  Útgerðin mun leitast við að útvega þeim sem missa vinnuna störf á öðrum skipum félagsins eins og kostur er.

Stefnir ÍS 28 var smíðaður í Flekkefjord í Noregi árið 1976 fyrir Flateyringa og bar fyrst nafnið Gyllir ÍS 261.   Skipið var keypt til Ísafjarðar í ársbyrjun 1993 og hefur verið gert út frá Ísafirði í nær 30 ár og hefur útgerð skipsins gengið vel.

þriðjudagurinn 9. ágúst 2022

Háafell lætur smíða þjónustubát

Um áramótin gekk Háafell ehf. frá samningum við KJ Hydraulic í Færeyjum um smíði á nýjum þjónustubáti fyrir sjókvíaeldi félagsins. Um er að ræða tvíbytnu sem er 15x8 metrar með 50 tm krana og tveimur 410 hp vélum auk 115 kw ljósavélar. Nýja tvíbytnan mun geta sinnt allri helstu þjónustu við eldið og verður með góða aðstöðu fyrir áhöfn. Áætlað er að afhending verði í haust en skrokkurinn er smíðaður í Póllandi en innréttingar, vélbúnaður og rafmagn klárað í Færeyjum. Báturinn mun sinna nýju eldissvæði Háafells í Skötufirði og heimahöfn verður í Súðavík.

Olavur Assafsson Olsen, framkvæmdastjóri KJ Hydraulic: „Við erum ánægðir með þetta verkefni, þetta er sextugasta og fyrsta nýsmíðin okkar og fimmta skipið sem er byggt fyrir fiskeldi á Íslandi. Háafell er spennandi fyrirtæki að vinna með og hafa þeir sýnt af sér fagmennsku í undirbúningsvinnu fyrir þetta verkefni. Okkar bátar eru með góða sjóhæfni, góð gæði og mikinn stöðugleika sem eru vinsælir eiginleikar fyrir fiskeldi í norður Atlandshafinu þar sem aðstæður geta verið krefjandi.

Gauti Geirsson er framkvæmdastjóri Háafells: „Við höfum góða reynslu af viðskiptum við KJ Hydraulic í Færeyjum en fyrirtækið hefur selt okkur kvíar og ýmsan búnað í eldið í að verða 20 ár. Þessi tvíbytna er mjög öflug og er enn eitt skrefið í að byggja fyrirtækið upp samhliða nýju laxeldisleyfi í Djúpinu.”

Háafell hefur leigt tvíbytnu, Hafnarnes frá Arctic Fish sem mun brúa bilið frammá haustið þar til nýsmíðin kemur. Hafnarnesið er nýkomið frá Stykkishólmi þar sem það var í slipp og var sótthreinsað og botnmálað.

föstudagurinn 1. júlí 2022

Fyrsti fóðurprammi Háafells væntanlegur

Fyrsti fóðurprammi Háafells er væntanlegur til Ísafjarðar í dag. Dráttarskipið Bestla lagði af stað með prammann þann 17. júní frá Tallinn í Eistlandi þar sem hann var smíðaður. Það er norska fyrirtækið Akvagroup sem smíðar prammann en hann tekur 450 tonn af fóðri, er 22 metrar á lengd og 12 metrar á breidd. Um borð er skrifstofa, eldhús, salerni og aðstoða fyrir starfsmenn Háafells.

Pramminn verður staðsettur í Vigurál undan Skarðsströnd á eldisstaðsetningu Háafells. Með tilkomu fóðurprammans er tryggð jöfn og góð fóðrun á staðsetningunni. Fóðurpramminn er útbúinn spenni fyrir landtengingu og hefur Háafell unnið að undirbúningi landtengingarinnar ásamt Eflu og Orkubúi Vestfjarða. Ljósavélar um borð verða því aðeins varaafl og pramminn knúinn grænni orku úr landi.

Háafell býður öllum áhugasömum að koma á að skoða fóðurprammann í innri höfninni á Ísafirði fyrir fram Edinborg mánudaginn 4. júlí á milli klukkan 16 og 18. Léttar veitingar verða í boði.