Virðiskeðja nýtt

Virðiskeðja

Ein nálgun sem hægt er að nota þegar hugað er að því hvernig hámarka megi tekjur og lágmarka kostnað við rekstur fyrirtækisins er að skoða virðiskeðju endanlegra afurða. Einnig með tilliti til að lágmarka umhverfisáhrif og sóun í virðiskeðjunni sem og að  tryggja öryggi heilnæmis, ferskleika og afhendingaröryggis endanlegs kaupanda, öllum til hagsbóta.

Til að framangreint sem best er mikilvægt að fyrirtækið hafi yfir að ráða nægjanlegum heimildum (leyfum) til að veiða eða ala í fiskeldi það hráefni sem framleiðslan og öll virðiskeðjan byggir á. Með útgerð eigin skipa og fiskeldis er hráefnisöflun fyrir vinnslu afurða best tryggð og þar með sölu og afhendingu afurða til kröfuharðra viðskiptavina. Innan fyrirtækisins er mikið lagt upp úr hámörkun veiðiheimilda sem næst meðal annars með samhæfingu veiða, vinnslu, sölu og afhendingu afurða á réttum tíma. Verðmætasköpun í sjávarútvegi er einnig mjög háð öguðum og góðum vinnubrögðum við veiðar, meðferð afla og vinnslu. Því má ætla að betri yfirsýn og stjórnun  innan virðiskeðjunnar verði markvissar sé hún að sem stærstum hluta á sömu hendi. Með dreifingu ýmissa fisktegunda á mismunandi vinnsluform (landvinnslu og sjóvinnslu) eru fleiri fætur sem byggt er á og viðráðanlegra að taka á móti umhverfissveiflum í hafinu og á mörkuðum. Samhæfð virðiskeðja hjálpar einnig til við nýtingu aukahráefnis sem til fellur í keðjunni.  Ef á framangreindan hátt hver hlekkur í virðiskeðjunni er skoðaður sem að þeir leggi sitt að mörkum til endanlegrar niðurstöðu sem í flestum tilvikum er arðsemi eða framlegð.

Ábyrgar veiðar og vinnsla

Við rekstur og frekari framþróun fyrirtækisins er mikilvægt að hugað sé að og tillit sé tekið til aukinnar vitundar neytenda og kaupenda um umhverfismál. Meðal annars þá kröfu að afurðum sem þeir neyta komi úr fiskveiðum sem stjórnað er með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Notkun á upprunamerki fyrir íslenskar sjávarafurðir og vottun ábyrgra fiskveiða, IRF (Iceland Responsible Fisheries), staðfestir að afurðir sem keyptar eru af fyrirtækinu mæti framangreindum kröfum. Tilgangurinn með notkun merkisins er að tryggja kaupendum og neytendum upplýsingar um að afurðir fyrirtækisins eigi uppruna sinn í ábyrgum fiskveiðum Íslendinga. Á álíkan hátt hefur fyrirtækið heimild til að auðkenna sínar afurðir sem MSC-vottaðar.

Sjálfbærni

Við rekstur og frekari framþróun fyrirtækisins er mikilvægt að hugað sé að og tillit sé tekið til sem flestra þátta í umhverfi þess. Þegar talað er um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda er í raun verið að vísa í hugtakið sjálfbæra þróun sem skilgreind hefur verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í svokallaðri Brundtland skýrslu sem: hugtaks sem vísar til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og reynt að ná jafnvægi á milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Sjálfbær þróun kallar á samþættingu þessara þriggja þátta við ákvarðanatöku frekar en að horfa á þá aðskilda. Þróun er flókið ferli þar sem saman spila ákvarðanir stjórnvalda, fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga og á við hvort heldur sem er við nýtingu villtra fiskstofnað eða svæða sem stunda má fiskeldisstarfsemi á.