Stjórn Frosta hf. Súðavík hefur ákveðið að hætta um sinn rækjuvinnslu í verksmiðju félagsins í Súðavík. Samhliða þessu neyðist fyrirtækið til þess að segja upp hluta af því starfsfólki sem starfar við verksmiðjuna, alls 18 manns í um 15 stöðugildum. Í frystigeymslum Frosta hf. er hráefni sem auk afla rækjuskipsins Andeyjar er áætlað að dugi til vinnslu næstu tvo mánuði, en þegar vinnslu þess er lokið verður rækjuvinnslu hætt.

Vegna þeirra alvarlegu aðstæðna sem skapast í atvinnulífi Súðvíkinga við þessar óhjákvæmilegu aðgerðir hefur Hraðfrystihúsið – Gunnvör h.f., annar eigandi Frosta hf., ákveðið að bjóða starfsfólkinu störf við bolfisksvinnslu HG í Hnífsdal og við störf sem skapast hafa vegna aukinna umsvifa á sviði þorskeldis HG í Súðavík. HG mun í samvinnu við Súðavíkurhrepp skoða möguleika á að taka þátt í kostnaði við akstur starfsfólksins á milli Súðavíkur og Hnífsdals.

Ástæða þessara aðgerða er mikill taprekstur rækjuvinnslu Frosta,. hf það sem af er ári og væri ábyrgðarlaust að halda áfram á sömu braut, enda gæti það leitt til þess að félagið færi í þrot. Helstu ástæður taprekstursins eru m.a. afar hátt gengi íslensku krónunnar ásamt lækkandi afurðaverði rækju. Einnig hefur veiði verið slök ásamt því að útgerðarkostnaður, s.s. olíukostnaður og innlendir kostnaðarliðir hafa hækkað mikið undanfarin misseri.

Hér er því að stærstum hluta um að ræða afleiðingar ytri aðstæðna bæði hér innanlands og utan, sem þessi atvinnugrein sem og aðrar útflutningsgreinar búa við um þessar mundir.

Fréttatilkynning frá Frosta,. hf., Súðavík

Til baka