Eldi 2

Saga fiskeldis HG

 

 

Unnið hefur verið að þróun og uppbyggingu fiskeldis innan fyrirtækisins frá árinu 2001. Í upphafi var fangaður  villtur smáþorskur sem fóðraður var í eldiskvíum og þar til honum var slátrað eftir 8 til 16 mánuði í eldi. Nokkrum árum seinna hófst aleldi á þorski þar sem smáseiði úr klöktum hrognum voru alin í strandeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri við Ísafjarðardjúp. Þegar þau höfðu náð 100 til 200 g stærð voru þau flutt út í sjókvíar í Seyðisfirði og Álftafirði og alin þar í sláturstærð en fyrirtækið er með leyfi fyrir framleiðslu á 2.000 tonnum af þorski. Eftir mikið verðfall á þorski haustið 2008 brugðust rekstrarlegar forsendur fyrir rekstrinum og undirbúningsvinna fyrir eldi laxfiska hafin. Í upphafi árs 2016 var síðasta eldisþorskinum slátrað en í lok sama árs hófst slátrun á fyrsta regnbogasilungnum. Sumarið 2017 er áformað að setja fyrstu laxaseiðin í sjókvíar í Álftafirði. Áform eru uppi um frekari uppbyggingu laxfiskaeldis og er stefnt að 7.000 tonna eldis á næstu árum.