Tíðindi

föstudagurinn 28. desember 2001

Metár hjá Júlíusi Geirmundssyni

Áætlað aflaverðmæti um 1100 milljónir kr. CIF.

Þrátt fyrir 6 vikur í verkfalli og 2 vikur í slipp tókst áhöfninni að skila á land þessu aflaverðmæti. Aflinn sem var um 4.860 tonn uppúr sjó var að stæðstum hluta þorskur og grálúða. Í áhöfn skipsins eru 25 menn og búast má við að hásetahlutur með orlofi verði um 11,5 milljónir. Skipið fer til veiða 2 janúar á nýju ári.
miðvikudagurinn 19. desember 2001

Gæðaverðlaun Coldwater Seafood Corp. í Bandaríkjunum

Bolfiskvinnsal H-G hf. í Hnífsdal fékk í dag afhent gæðaverðlaun Coldwater Seafood Corp. í Bandaríkjunum.

Verðlaunin eru veglegur skjöldur sem veittur er fyrir góðan stuðning og vöruvöndun við framleiðslu á afurðum fyrir Coldwater árið 2001. Af landfrystum afurðum  H-G hf. er Bandaríkjamarkaður mikilvægasti  markaður fyrirtækisins og því ánægjuleg viðurkenning  fyrir starfsmenn bolfiksvinnslunnar sem lagt hafa sig fram við framleiðslu afurðu af mjög jöfnum og góðum gæðum.
miðvikudagurinn 19. desember 2001

Þorskeldisverkefni

H-G hf. hefur staðið að þremur tilraunaverkefnum er snúa að þorskeldi á árinu sem er að líða. Einu verkefnanna er að ljúka, hin tvö verða áfram í gangi á næsta ári.

Fóðurverkefni á Skutulsfirði

Verklegum hluta þorskeldisverkefnisins á Skutulsfirði lauk nú í byrjun desember með slátrun á rúmlega 3.000 þorskum. Í verkefninu voru bornar saman mismunandi fóðurgerðir við áframeldi á þorski, þ.e. tilbúið votfóður, þurrfóður og loðna/síli. Unnið er að úrvinnslu niðurstaðna, en ásamt H-G hf voru Ketill Elíasson, Hafró, Rf, Háskólinn á Akureyri og Fóðurverksmiðjan Laxá hf. aðilar að verkefninu

 

Áframeldi á Álftafirði

Nú í byrjun vikunnar var slátrað úr eldiskví H-G hf á Álftafirði um 15 tonnum af þorski úr áframeldi. 15.000 þorskar voru veiddir í snurrvoð í júlímánuði og færðir í eldiskví á Álftafirði. Veiðar og meðhöndlun á lifandi fiski hefur gengið vel og vöxturinn á þorskinum í áframeldinu hefur verið í samræmi við væntingar. Fiskurinn hefur verið unninn í bæði ferskar -og frystar afurðir og hafa viðbrögð kaupenda erlendis verið góð. Áætlað er að slátrað magn úr kvínni verði komið í 60 tonn fyrir vorið. Áformað er að halda hluta af fiskinum áfram í eldi í vetur og fylgjast með hvernig fiskurinn og kvíin fer með sig yfir erfiðasta tíma ársins.

 

Þorskseiðaeldi

Snemma í haust hóf fyrirtækið eldi á þorskseiðum sem klakið var út í tilraunaeldisstöð Hafró á Stað í Grindavík. Seiðin voru um 12 gr. í október og eru þau alin í kerjum á landi og er áætlað að ala þau í sláturstærð.

Á þessu fyrsta ári hefur mikilvæg reynsla og þekking byggst upp innan fyrirtækisins sem koma mun til góða í framtíðinni, bæði hvað varðar veiðar og meðhöndlun á lifandi þorski, eldistækni og markaðsmálum kældra afurða.


þriðjudagurinn 19. júní 2001

Áframeldi Þorsks

Þorskur vigtaður og merktur.

Í dag var lokið við að vigta og merkja þorsk í þremur eldiskvíum á Skutulsfirði, Verkefnið er unnið af starfsmönnum Hraðfrystihússins-Gunnvarar og Katli Elíassyni í Bolungarvík í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun á Ísafirði, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins á Ísafirði, Háskólann á Akureyri og Fóðurverksmiðjuna Laxá. Markmið verkefnisins er að þróa votfóður með það að markmiði að lámarka fóðurkostnað, Rannsaka áhrif fóðurgerðar á vöxt og að leggja mat á hagkvæmni þorskeldis. Verkefnisstjóri er Kristján G. Jóakimsson.
þriðjudagurinn 12. júní 2001

Metveiðiferð

Júlíus slær fyrri met

Júlíus Geirmundsson er á landleið úr metveiðiferð. Áætlað aflaverðmæti í þessari veiðiferð sem hófst 16. maí er rúmar 160 milljónir. Veiðiferðin hefur staðið í 24 sólarhringa sem gerir um 6,7 milljónir á sólarhring að jafnaði. Mánudaginn 28. maí létti Júlíus á sér í Reykjavík. Aflin um 600 tonn upp úr sjó af grálúðu fékkst út á “Torgi”.