Áramótakveðja framkvæmdastjóra
þriðjudagurinn 31. desember 2019

Áramótakveðja framkvæmdastjóra

Á árinu sem er að líða hefur rekstur og starfsemi Hraðfrystihússins-Gunnvarar  gengið vel.

Staða eldismála

Á árinu fékk Háafell, dótturfélag HG, útgefið stækkað leyfi fyrir seiðaeldisstöð félagsins á Nauteyri við Ísafjarðardjúp en þar hafa verið framleidd heilbrigð laxa- og regnbogasilungsseiði um árabil. Eins hafa leyfi fyrir regnbogasilungseldi í sjókvíum verið auglýst. Eru þetta jákvæð skref í uppbyggingaráformum Háafells í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi.

Ríflega átta ár eru síðan áform um laxeldi Háafells voru fyrst kynnt stjórnsýslunni. Ennþá ríkir þó fullkomin óvissa um fyrirkomulag laxeldis við Ísafjarðardjúp. Það skýtur skökku við að það sé Háafell, eina alíslenska fyrirtækið sem hefur gildar umsóknir í laxeldi, sem situr uppi með algjöra óvissu um hvenær uppbygging getur hafist, á meðan öðrum fyrirtækjum hefur verið gert kleift að byggja sig upp á öðrum svæðum.

Ekki virðist skipta máli hve oft sól stendur hæst á lofti við Djúp, ekki bólar enn á nýju áhættumati sem þó hefur verið boðað trekk í trekk af hendi Hafrannsóknastofnunar. Enn sitja því fyrirtæki og samfélög við Djúp eftir í óvissu, á svæði sem hefur verið skilgreint sem fiskeldissvæði. Stjórnvöld bera ábyrgð á að leyfisveitingar séu byggðar á bestu vísindum og mótvægisaðgerðum. Miðað við reynslu okkar undanfarin misseri og ár hefur stjórnvöldum mistekist algjörlega að uppfylla þetta hlutverk sitt. Það er hinsvegar von mín að á nýju ári sjái menn að sér og tryggi að hægt verði að hefja langþráða uppbyggingu laxeldis við Ísafjarðardjúp af fullum krafti.

Sjávarútvegur í forystu í umhverfismálum

Umhverfismál skipa sífellt stærri sess í rekstri fyrirtækja og ekki síst  í sjávarútvegi. Heilbrigt haf er allra hagur. Plast í hafi, súrnun sjávar og hlýnun eru aðkallandi áskoranir sem bregðast verður við. Sem betur fer hefur orðið mikil vitundarvakning um umhverfismálin og hefur íslenskur sjávarútvegur lagt sig fram um að vera í forystu í þeim efnum. Sem dæmi má nefna að um 1.100 tonn af veiðarfærum eru endurunnin á ári.  Frá árinu 1995 hefur CO2 losun  í sjávarútvegi dregist saman um 48% á sama tíma og CO2 losun frá íslenska hagkerfinu hefur tvöfaldast. Slíkur árangur hefur náðst vegna mikilla fjárfestinga í greininni, meðal annars í sparneytnari skipum eins og til að mynda nýja Páli Pálssyni, sem og með hagkvæmu kvótakerfi sem stuðlað hefur að skynsamlegri nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Veiðar, vinnsla og markaðir

Veiðar og vinnsla hafa gengið vel, svo og sala afurða samfara jákvæðri þróun afurðaverðs. Togarar fyrirtækisins, Júlíus Geirmundsson, Páll Pálsson og Stefnir hafa allir aflað vel  og Valur gerði það gott í innfjarðarrækjunni. Það sem þó er mest um vert er að árið hefur verið áfallalaust bæði til sjós og lands .

Núverandi og fyrrverandi starfsmönnum okkar þakka ég samfylgdina á árinu sem er að líða og óska  þeim og landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf.

Til baka