Árleg skötuveisla fyrir starfsfólk Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. var haldin í hádeginu í dag og fjölsótt að vanda. Eins og vanalega hefur Sveinn Guðbjartsson verkstjóri veg og vanda að því að nóg sé af góðri skötu og segir að í ár sé hún mild, en samt ágætlega bragðsterk eins og vera ber. Hráefnið er tindabikkja af togurum fyrirtækisins.

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hefur í gegnum tíðina reynt eftir megni að styðja við samfélagsleg verkefni í heimabyggð. Að undanförnu hefur verið leitað leiða til að kaupa nýja stóla í mat- og samkomusal Hlífar, íbúða aldraðra á Ísafirði. Ákveðið var að styðja við verkefnið og í skötuveislunni í dag afhenti Kristján G. Jóhannsson, stjórnarformaður H-G, fulltrúum Hlífar þeim Ingibjörgu Kjartansdóttur deildarstjóra og Brynhildi Halldórsdóttur myndarlegt framlag til kaupanna.

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. óskar starfsfólki, viðskiptavinum og öðrum velunnurum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, með þakklæti fyrir samstarfið á árinu.

Til baka