Tímamót í Ísafjarðardjúpi
þriðjudagurinn 17. maí 2022

Fyrstu laxaseiði Háafells voru sett í kvíar í Skötufirði í gær. Seiðin eru flutt með brunnbátnum Papey ÍS frá seiðaeldisstöð Háafells á Nauteyri og ganga flutningar vel. Unnið hefur verið að undirbúningi í rúman áratug en Háafell sótti fyrst um leyfi fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi árið 2011. Uppbygging á laxeldi í Ísafjarðardjúpi mun auka byggðafestu, fjölga atvinnutækifærum og stuðla að blómlegra mannlífi. Auk seiðaeldis á Nauteyri er Háafell því nú með laxeldi í sjókvíum í Skötufirði og regnbogasilung  við Bæjahlíð.

Einar Valur Kristjánsson, stjórnarformaður Háafells: „Við þessi tímamót verður manni fyrst hugsað til þeirra sem hafa lagt hönd á plóg í þessu umsóknarferli. Þau eiga öll þakkir skildar. Stóra verkefnið fram undan er að gæta að auðlindinni Ísafjarðardjúpi og tryggja gott heilbrigðisástand í Djúpinu. Það verður best gert með því að tryggja fjarlægðarmörk milli eldissvæða, með skýrum reglum, aðgæslu og vel þjálfuðu starfsfólki. Það hafa margir hagsmuna að gæta í Djúpinu og ef vel er á spilum haldið eiga þeir vel að geta farið saman.“

Til baka