Tíðindi

mánudagurinn 5. desember 2022

Ísafjörður - útgerð skuttogara í fimmtíu ár

Fyrsti skuttogarinn kemur til Ísafjarðar

Fyrsti skuttogari Ísfirðinga Július Geirmundsson ÍS 270 kom til heimahafnar á Ísafirði 5. desember 1972.  Hann var smíðaður í Flekkefjord í Noregi fyrir Gunnvöru hf. og var fyrstur í röðinni af fimm skuttogurum, sem vestfirskar útgerðir sömdu um smíði á. Greint var frá komu skipsins í jólablaði Vesturlands og þar kom m.a. fram:

“Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson er smíðaður í Flekkefjord í Noregi og er 407 lestir að stærð. Aðalvél skipsins er af Wichmann-gerð 1750 hestöfl og einnig eru í því tvær ljósavélar af GM-gerð, 215 hestöfl hvor. Skipið er búið mjög fullkomnum og nýtískulegum siglinga- og fiskleitartækjum og allur fiskur er ísaður í kassa um borð.  

Skipið er nú í annari veiðiferð sinni en í þeirri fyrstu hreppti skipið slæmt veður og reyndist þá ágætt sjóskip” 

Það voru ýmis nýmæli í norsku togurunum, þeir voru búnir vélum til framleiðslu á ís um borð og aflinn var ísaður í kassa sem bætti stórlega meðferð hans og þar með gæði hráefnisins fyrir fiskvinnslurnar í landi. Einnig voru þeir vel búnir til veiða með flotvörpu og hægt var að skipta yfir á þær veiðar á örskömmum tíma. Það kom sér vel eftir að Íslendingar komust upp á lagið með veiðar í flotvörpu á áttunda áratugnum.

Rekstur Júlíusar Geirmundssonar gekk afar vel næstu árin. Fyrsta heila árið var aflinn tæp þrjú þúsund tonn en jókst smátt og smátt og var síðan næstu árin um fjögur þúsund tonn.

Fyrsti skuttogari Hnífsdælinga

Miðfell hf. í Hnífsdal, sem var að mestu leyti í eigu  Hraðfrystihússins hf., samdi í lok árs 1971 um smíði á skuttogara í Japan.   Páll Pálsson ÍS 102 kom til heimahafnar 21. febrúar 1973 eftir tæplega tveggja mánaða siglingu frá Japan yfir tvö úthöf.

Greint var frá komu skipsins í blaðinu Ísfirðingi 3. mars 1973 og þar segir m.a.

“Páll Pálsson er smíðaður í skipasmíðastöðinni Narasaki Múroran Hokkaídó í Japan. Kjölurinn var lagður í júlí sl. en skipið var afhent eigendum 31. desember.  Skipið er 461,5 tn., lengdin 47 m milli stafna.  Í því eru eingöngu japanskar vélar, bæði aðalvél og hjálparv. og eru þær af tegundinni Niigata.  Er aðalvélin 2.100 hestöfl.”

Eins og á sambærilegum skipum var aflinn ísaður í kassa og ísinn framleiddur um borð. Fyrstu árin var aflinn á milli tvö og þrjú þúsund tonn, en jókst verulega þegar leið á áttunda áratuginn og var um margra ára skeið á bilinu fjögur til tæplega sex þúsund tonn á ári.

Bylting í sjósókn og bætt aðstaða áhafnar

Það var mikil bylting  í sjósókn þegar skuttogararnir komu fyrst í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og viðbrigðin mikil hjá sjómönnunum að koma af  250 tonna skipunum, sem upphaflega voru byggð til nóta- og netaveiða, en reyndust samt ágætlega sem togskip eftir að síldin hvarf. Nýju skipin voru stærri og öflugri, betur búin til togveiða og gert að aflanum á lokuðu millidekki. 

 

Í áranna rás voru þessi skip endurnýjuð með stærri og öflugri skipum, en nöfnin hafa haldið sér. 

miðvikudagurinn 23. nóvember 2022

Tveir skipverjar í sínum seinasta túr á Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270

Skipsfélagarnir Kristján Karlsson vélstjóri og Halldór L. Sigurðsson netamaður stíga nú í land af frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 eftir áratuga störf um borð. 

Kristján hóf störf sem vélstjóri á skipinu 13. nóvember 1989 þegar það kom nýsmíðað til landsins og hefur því starfað þar um 33 ára skeið. Sjómennsku hefur hann stundað í 52 ár því áður var hann m.a. á Sigurey, Guðmundi Tungu og Selá. 

Halldór hefur undanfarin 17 ár verið netamaður á Júlíusi, en sjómennskan spannar 42 ár því áður var hann m.a. á Hrafni, Sléttanesi og Framnesi. 

Við þökkum þessum frábæru starfsmönnum fyrir vel unnin störf undanfarna áratugi og óskum þeim alls hins besta í framtíðinni.

 

föstudagurinn 21. október 2022

HG er framúrskarandi fyrirtæki 2022

Á hverju ári vinnur Creditinfo greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangurinn. Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra. Til þess að teljast framúrskarandi þurfa fyrirtækin að uppfylla ströng skilyrði sem eru listuð hér fyrir neðan:

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
  • Ársreikningi skal skilað á réttum tíma lögum samkvæmt
  • Hefur skilað ársreikningi til RSK síðustu þrjú ár
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Rekstrartekjur að lágmaarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
  • Fyrirtækið með rekstrartekjur yfir 10 milljarða þurfa að fylla út spurningalista um sjálfbærni
  • Framkvæmdastjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár
  • Ársniðurstaða jákvæð síðustu þrjú ár
  • Eigignfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir síðustu þrjú ár

Hraðfrystihúsið Gunnvör er stolt að vera á þessum lista og þökkum við okkar frábæra starfsfólki og góðu viðskiptavinum. 

fimmtudagurinn 20. október 2022

HG veitt heiðursslaufa Sigurvonar

Hraðfrystihúsinu Gunnvör var veitt heiðursslaufa krabbameinsfélagsins Sigurvonar síðastliðin þriðjudag 18. október. Meginmarkmið Sigurvonar er að styðja fjárhagslega við krabbameinsgreinda einstaklinga sem alla jafna þurfa að sækja meðferðir utan heimabyggðar sem hefur mikinn kostnað í för með sér. Með veitingunni vildu aðstandendur Sigurvonar þakka HG fyrir dyggilegan fjárstuðning til fjölda ára. 

Þeir sem vilja sýna Sigurvon stuðning er bent á að hægt er að ganga í félagið og geiða hógvært ársgjald. 

miðvikudagurinn 21. september 2022

Útgerð bv. Stefnis ÍS 28 hætt

Úthlutað aflamark í þorski hefur dregist saman um 23% á síðustu tveimur fiskveiðiárum og dragast  aflaheimildir H-G hf. saman um 1.200 tonn við það. Einnig hefur orðið veruleg skerðing  í úthlutuðu aflamarki í gullkarfa, sem hefur verið mikilvæg tegund í útgerð Stefnis.  Í ljósi þessa hefur verið ákveðið að hætta útgerð Stefnis.  Með þeirri aðgerð mun rekstrargrundvöllur annarra skipa félagsins styrkjast.

Ákveðið hefur verið að segja áhöfn skipsins, sem telur 13 manns, upp frá og með áramótum.  Útgerðin mun leitast við að útvega þeim sem missa vinnuna störf á öðrum skipum félagsins eins og kostur er.

Stefnir ÍS 28 var smíðaður í Flekkefjord í Noregi árið 1976 fyrir Flateyringa og bar fyrst nafnið Gyllir ÍS 261.   Skipið var keypt til Ísafjarðar í ársbyrjun 1993 og hefur verið gert út frá Ísafirði í nær 30 ár og hefur útgerð skipsins gengið vel.