Tíðindi

fimmtudagurinn 14. mars 2002

Aflinn 2001

Aflamagn og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf árið 2001

Alls öfluðu skip H-G hf 11.717 tonna að verðmæti um 1.772 milljónir króna. Frystiskipið Júlíus Geirmundsson var um hálfann mánuð í slipp þar sem settar voru í skipið nýjar togvindur. Uppistaða í afla Júlíusar var þorskur og grálúða. Uppistaða í afla ísfisktogarans Páls Pálssonar var þorskur sem að mestum hluta fór til vinnslu í frystihúsi félagsins í Hnífsdal. Stefnir var á bolfiskveiðum fyrrihluta árs þar sem aflinn var að mestu steinbítur þorskur og ýsa. Eftir verkfall fór hann á rækjuveiðar. Stefnir var í slipp í um mánuð. Andey var á rækjuveiðum allt árið. Framnes var á rækjuveiðum allt árið utan tveggja mánaða þar sem skipið fór til Póllands í stálviðgerðir. Auk þessara fimm skipa gerir félagið út rækjubátana Báru og Örn sem stunda rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi.

 

 
Afli
Verðmæti
 
Júlíus Geirmundsson
4.558 tonn
1.100 millj.
cif.
Páll Pálsson
3.726 tonn
360 millj.
 
Andey
964 tonn
91 millj.
 
Framnes
723 tonn
68 millj.
 
Stefnir
1.357 tonn
124 millj.
 
Bára
194 tonn
14 millj.
 
Örn
195 tonn
14 millj.
 
Alls.
11.717 tonn
1.772 millj.kr.
 
föstudagurinn 28. desember 2001

Metár hjá Júlíusi Geirmundssyni

Áætlað aflaverðmæti um 1100 milljónir kr. CIF.

Þrátt fyrir 6 vikur í verkfalli og 2 vikur í slipp tókst áhöfninni að skila á land þessu aflaverðmæti. Aflinn sem var um 4.860 tonn uppúr sjó var að stæðstum hluta þorskur og grálúða. Í áhöfn skipsins eru 25 menn og búast má við að hásetahlutur með orlofi verði um 11,5 milljónir. Skipið fer til veiða 2 janúar á nýju ári.
miðvikudagurinn 19. desember 2001

Gæðaverðlaun Coldwater Seafood Corp. í Bandaríkjunum

Bolfiskvinnsal H-G hf. í Hnífsdal fékk í dag afhent gæðaverðlaun Coldwater Seafood Corp. í Bandaríkjunum.

Verðlaunin eru veglegur skjöldur sem veittur er fyrir góðan stuðning og vöruvöndun við framleiðslu á afurðum fyrir Coldwater árið 2001. Af landfrystum afurðum  H-G hf. er Bandaríkjamarkaður mikilvægasti  markaður fyrirtækisins og því ánægjuleg viðurkenning  fyrir starfsmenn bolfiksvinnslunnar sem lagt hafa sig fram við framleiðslu afurðu af mjög jöfnum og góðum gæðum.
miðvikudagurinn 19. desember 2001

Þorskeldisverkefni

H-G hf. hefur staðið að þremur tilraunaverkefnum er snúa að þorskeldi á árinu sem er að líða. Einu verkefnanna er að ljúka, hin tvö verða áfram í gangi á næsta ári.

Fóðurverkefni á Skutulsfirði

Verklegum hluta þorskeldisverkefnisins á Skutulsfirði lauk nú í byrjun desember með slátrun á rúmlega 3.000 þorskum. Í verkefninu voru bornar saman mismunandi fóðurgerðir við áframeldi á þorski, þ.e. tilbúið votfóður, þurrfóður og loðna/síli. Unnið er að úrvinnslu niðurstaðna, en ásamt H-G hf voru Ketill Elíasson, Hafró, Rf, Háskólinn á Akureyri og Fóðurverksmiðjan Laxá hf. aðilar að verkefninu

 

Áframeldi á Álftafirði

Nú í byrjun vikunnar var slátrað úr eldiskví H-G hf á Álftafirði um 15 tonnum af þorski úr áframeldi. 15.000 þorskar voru veiddir í snurrvoð í júlímánuði og færðir í eldiskví á Álftafirði. Veiðar og meðhöndlun á lifandi fiski hefur gengið vel og vöxturinn á þorskinum í áframeldinu hefur verið í samræmi við væntingar. Fiskurinn hefur verið unninn í bæði ferskar -og frystar afurðir og hafa viðbrögð kaupenda erlendis verið góð. Áætlað er að slátrað magn úr kvínni verði komið í 60 tonn fyrir vorið. Áformað er að halda hluta af fiskinum áfram í eldi í vetur og fylgjast með hvernig fiskurinn og kvíin fer með sig yfir erfiðasta tíma ársins.

 

Þorskseiðaeldi

Snemma í haust hóf fyrirtækið eldi á þorskseiðum sem klakið var út í tilraunaeldisstöð Hafró á Stað í Grindavík. Seiðin voru um 12 gr. í október og eru þau alin í kerjum á landi og er áætlað að ala þau í sláturstærð.

Á þessu fyrsta ári hefur mikilvæg reynsla og þekking byggst upp innan fyrirtækisins sem koma mun til góða í framtíðinni, bæði hvað varðar veiðar og meðhöndlun á lifandi þorski, eldistækni og markaðsmálum kældra afurða.


þriðjudagurinn 19. júní 2001

Áframeldi Þorsks

Þorskur vigtaður og merktur.

Í dag var lokið við að vigta og merkja þorsk í þremur eldiskvíum á Skutulsfirði, Verkefnið er unnið af starfsmönnum Hraðfrystihússins-Gunnvarar og Katli Elíassyni í Bolungarvík í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun á Ísafirði, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins á Ísafirði, Háskólann á Akureyri og Fóðurverksmiðjuna Laxá. Markmið verkefnisins er að þróa votfóður með það að markmiði að lámarka fóðurkostnað, Rannsaka áhrif fóðurgerðar á vöxt og að leggja mat á hagkvæmni þorskeldis. Verkefnisstjóri er Kristján G. Jóakimsson.