Tíðindi

mánudagurinn 23. nóvember 2009

Aflaverðmætið 24 milljarðar á 20 árum

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. fagnaði því sl. fimmtudag að tuttugu ár eru um þessar mundir liðin frá því frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom til landsins. Á þessum tuttugu árum lætur nærri að aflaverðmæti skipsins nemi 24 milljörðum króna á núvirði. Um eitt hundrað gestir sóttu hóf sem fyrirtækið hélt til að minnast þessara tímamóta.
Í ræðu sem Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf., flutti í tilefni dagsins lagði hann áherslu á mikilvægi þess stöðugleika í atvinnu og tekjum sem fylgdi atvinnutækjum á borð við Júlíus Geirmundsson. Í þessu samhengi er gaman að geta þess að skipstjórinn á happafleyinu Júlíusi, Ómar Ellertsson, hefur unnið hjá fyrirtækinu í 40 ár.
„Árlegt aflaverðmæti skipsins lætur nærri að vera um 1200 milljónir króna á verðlagi dagsins. Þannig hefur skipið aflað um 90.000 tonna upp úr sjó á þessum tuttugu árum og heildarverðmæti afurðanna slagar í 24 milljarða króna. Það er margt hægt að gera fyrir 1200 milljóna króna árlegt aflaverðmæti. Fyrir þá upphæð mætti byggja sex leikskóla eins og Sólborg. Fyrir þessa upphæð mætti líka reka alla leikskóla, grunnskóla og menntaskóla í Ísafjarðarbæ í eitt ár," sagði Einar Valur.
Hann benti á mikilvægi togararans fyrir bæjarfélagið. „Þannig fær Ísafjarðarbær á þessu ári um fimmtíu milljónir króna í útsvarsgreiðslur af launum áhafnar skipsins. Aðrar tíu milljónir renna til hafnarsjóðs, auk beinna og óbeinna áhrifa sem fjárfesting, rekstur og neysla útgerðar og áhafnar hefur á þjónustufyrirtæki og bæjarsjóð, já og reyndar samfélagið allt. Margfeldisáhrifin eru mikil."
Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. byggir á gömlum merg. Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal var stofnað árið 1941 og Gunnvör hf. árið 1955. Fyrirtækin sameinuðust fyrir tíu árum. Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. gerir auk Júlíus Geirmundssonar, út ísfisktogaranna Pál Pálsson ÍS 102 og Stefni ÍS 28. Fyrirtækið rekur fiskvinnslu í Hnífsdal og á Ísafirði, umfangsmikið þorskeldi víða í Ísafjarðardjúpi og lifrarniðursuðu í Súðavík. Starfsmenn til sjós og lands eru ríflega 200 í 140 stöðugildum. Fyrirtækið er að stærstum í eigu fjölskyldna sem eiga rætur sínar í þessum félögum.


Undanfarin fimmtán ár hefur Júlíus unnið sérstaklega þorskflök með roði fyrir veitingastaðakeðjuna Fish‘n‘Chicken í Bretlandi. Það er fjölskyldufyrirtæki sem stendur að baki þessari stærstu keðju sinnar tegundar þar um slóðir og veitingastaðir hennar eru orðnir á fjórða tug. Framkvæmdastjóri keðjunnar, Hugh Lipscombe, var á meðal gesta og ávarpaði samkomuna.

föstudagurinn 16. október 2009

Kallar eftir stuðningi hafnarstjórnar við útgerðarfyrirtæki

Formaður stjórnar Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. spyr í bréfi til Hafnarstjórnar Ísafjarðar hvort hún geti hugsað sér að samþykkja ályktun, þar sem hvatt er til að rekstrarskilyrði útgerðarfyrirtækja verði ekki skert og stutt verði við bakið á raunverulegri nýsköpun á þessu sviði eins og t.d. fiskeldi.

Ástæða fyrirspurnarinnar er samþykkt hafnarstjórnar, þar sem strandveiðitilraun stjórnvalda í sumar er fagnað. Er m.a. vísað til þess að tekjur hafnarinnar af veiðunum hafi verið á aðra milljón króna. Í bréfinu er vakin athygli á því að á sama tímabili námu tekjur Ísafjarðarhafnar af skipum HG vel á níundu milljón króna.

 

Bréfið, sem sent var sl. þriðjudag, fer hér í heild sinni:

 

Ísafirði, 12. október 2009.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar,
Hafnarhúsinu,
400 Ísafirði.

 

Á fundi hafnarstjórnar þann 29. september sl. var lagt fram yfirlit um tekjur hafna Ísafjarðarbæjar af strandveiðum, sem leyfðar voru síðastliðið sumar. Þar kemur fram að landað hafi verið rúmum 289 tonnum að verðmæti 62 milljónir króna og að beinar tekjur hafnarinnar af þeim hafi verið tæp 1,5 milljónir króna. Í framhaldi af þessu er samþykkt ályktun, sem hljóðar svo:

 

„Hafnarstjórn fagnar mjög þessari tilraun og skorar á sjávarútvegsráðherra að úvíkka kerfið þar sem þetta virðist hafa gengið mjög vel og verkefnið þróist áfram. Skoða mætti hvort úthlutun veiðileyfanna gæti orðið hluti af tekjuöflun sveitarfélagsins."


Samþykkt þessarar ályktunar leiðir hugann að því hvort Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar telji eitt útgerðarform öðru betra og telji hag hafnarsjóðs betur borgið með því. Í framhaldi af þessari samþykkt viljum við benda á eftirfarandi:
Sömu mánuði og strandveiðar voru leyfðar, þ.e. júní, júlí og ágúst lönduðu þrír togarar Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. afla að verðmæti 766 milljónum króna í Ísafjarðarhöfn og var þar um að ræða 2.120 tonn af ísvörðum fiski og tæp 900 tonn af frystum afurðum eða samtals rúmlega 3.500 tonn af fiski upp úr sjó.
Aflagjöld skipanna til hafnarsjóðs voru tæpar 7 milljónir króna og auk þess voru önnur hafnargjöld að upphæð 1,5 milljónir króna eða samtals tæpar 8,5 milljónir króna. Auk þessa voru þrír bátar að veiðum fyrir þorskeldi fyrirtækisins og lönduðu þeir í kvíar 214 tonnum á þessu tímabili og má búast við að sá fiskur verði orðinn 4-500 tonn í vetur þegar honum verður slátrað og landað í höfnum hér á svæðinu. Reikna má með að launagreiðslur útgerðarinnar hafi á þessu tímabili numið um 300 milljónum króna vegna þessara skipa.
Í þessu stutta yfirliti eru einungis teknir þrír mánuðir, en bent skal á að starfsemin er svipuð aðra mánuði ársins þegar strandveiðar eru ekki mögulegar.
Með hliðsjón af þessum tölum hefðum við áhuga á að vita hvort hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar teldi að hlúa ætti að starfsemi sem þessari, t.d. með því að samþykkja ályktun þar sem hvatt er til að rekstrarskilyrði útgerðarfyrirtækja verði ekki skert og stutt verði við bakið á raunverulegri nýsköpun á þessu sviði eins og t.d. fiskeldi.
Ljóst er að miklu meiri hagsmunir eru af því fyrir hafnarsjóð og bæjarfélagið allt að öflug fyrirtæki í sjávarútvegi fái notið sín fremur en að strandveiðar verði auknar og aflaheimildir til þeirra fluttar frá fyrirtækjum sem halda uppi atvinnu og verðmætasköpun allan ársins hring.

 

Virðingarfyllst:

Kristján G. Jóhannsson, stjórnarformaður.

 

 

mánudagurinn 13. júlí 2009

Mettúr hjá Júlíusi Geirmundssyni.

Þeir voru kátir strákarnir á Júlíusi Geirmundsyni sem kom til heimahafnar á Ísafirði snemma á sunnudagsmorgun, enda engin furða, fullt skip af fiski eftir mánaðartúr.
Uppistaða aflans sem er um 550 tonn uppúr sjó er Þorskur, Ufsi og Grálúða og er aflaverðmætið áætlað 184 milljónir króna.
Að sjáfsögðu var útgerðarstjórinn mættur á bryggjuna með gómsæta tertu sem menn gæddu sér á í sólinni.
Lokið var við að landa í gærkvöldi og er áætluð brottför aðfararnótt föstudags.
þriðjudagurinn 2. júní 2009

Vertíðarlok í Lifrarniðursuðunni

Starfsfólk niðursuðuverksmiðju Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Súðavík gerður sér dagamun síðastliðinn föstudag og fögnuðu nýju framleiðslumeti í Lifrarniðursuðunni, en formlegri niðursuðuvertíð lauk þá. Framleitt var í tæpar 2,4 milljónir dósa sem er 60% aukning frá vertíðinni í fyrra og þar með framleiðslumet.

Hráefnið hefur komið að langstæðstum hluta úr Þorskeldi fyrirtækisins í Álftarfirði og Seyðisfirði og af ísfisktogaranum Páli Pálssyni ÍS 102, auk þess sem hráefnis aflað á mörkuðum og víðar af svæðinu.

 

Við viljum nota tækifærið og þakka starfsfóki okkar til sjós og lands fyrir gott samstarf og vonumst til að geta hafist handa að fullulm krafti aftur í haust.


miðvikudagurinn 7. janúar 2009

Aflinn 2008

Páll og Stefnir slá met annað árið í röð, Júlíus með sitt annað besta ár.
Stefnir var frá veiðum í um 7 vikur vegna slipps, viðgerða og einnig var settur í skipið nýr búnaður frá 3XTechnology, til að snögg kæla fisk á millidekki, sem leiðir til betra geymsluþols og meiri gæða.
Páll var frá veiðum í um 5 vikur vegna sumarlokunar í frystihúsinu og slipps.
Júlíus var að veiðum allt árið.

Afli skipa 2008
Júlíus Geirmundsson ÍS - 270 4.583 tonn 1.084 milljónir
Páll Pálsson ÍS-102 3.896 tonn    628 milljónir
Stefnir ÍS - 28 2.840 tonn    543 milljónir

Aflaverðmæti Júlíusar er reiknað í EXW verðum.