Tíðindi

miðvikudagurinn 21. október 2020

Tilkynning vegna COVID-19.

Niðurstaða mótefnamælinga meðal skipverja á frystiskipinu, Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270, liggja nú fyrir. Níu skipverjar hafa jafnað sig á veikindunum, eru með mótefni og því frjálsir ferða sinna. Þrettán eru smitaðir og þurfa að vera í einangrun. Þrír eru hvorki smitaðir né með mótefni og þurfa því að sæta sóttkví. Fimm fóru í farsóttarhús í nágrenni Ísafjarðar sem sett hafði verður upp af þessu tilefni. Aðrir fara til síns heima eða í íbúðir á eigin vegum. Tveir verða eftir um borð í skipinu.

Fyrirtækið vill koma því á framfæri að fljótlega eftir að  bera fór á flensueinkennum meðal áhafnar var haft samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Ekki þótti ástæða til að kalla skipið  til hafnar á þeim tíma. Eftir 3 vikur á veiðum var ljóst í kjölfar skimunar allra áhafnarmeðlima að COVID-19 smit var um borð, var skipinu þá umsvifalaust snúið til hafnar. Í ljósi þeirrar vitneskju sem nú liggur fyrir hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar og setja alla áhöfnina í skimun.  

Í lestum skipsins eru um 213 tonn af frystum afurðum. Matvælastofnun (MAST) gefur að öllu jöfnu út heilbrigðisvottorð fyrir afurðir sem fluttar eru út til ríkja utan EES. Innan EES er unnið í samræmi við evrópska matvælalöggjöf. Samkvæmt upplýsingum frá MAST er ekkert sem bendir til þess að COVID-19 geti borist með matvælum og er það samkvæmt áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eru sama sinnis og hafa gefið út leiðbeiningar um COVID-19 og matvæli, sjá nánar hér.

Á næstu dögum verður skipið sótthreinsað með viðeigandi efnum í samræmi við viðurkennda verkferla þar til bærra aðila.

mánudagurinn 19. október 2020

Tilkynning.

Meirihluti áhafnar frystiskipsins, Júlíusar Geirmundssonar Ís 270, sem gerður er út af Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru hf,  á Ísafirði, reyndist smitaður af COVID-19.

Þetta varð ljóst eftir að sýni voru tekin úr allri áhöfninni, þegar skipið kom til hafnar í gærkvöldi til olíutöku á Ísafirði. Veiðiferðin hafði þá staðið í þrjár vikur og nokkrir í áhöfn verið með flensueinkenni. Þegar skipið kom til hafnar fóru heilbrigðisstarfsmenn um borð til sýnatöku, en enginn úr áhöfn fór í land.

Að sýnatöku lokinni lagði skipið úr höfn, en niðurstöður úr sýnatöku komu ekki fyrr en nú undir kvöld. Þegar þær lágu fyrir var veiðum þegar hætt og skipinu snúið til hafnar og er það væntanlegt til Ísafjarðar á morgun. Enginn um borð virðist vera alvarlega veikur. Útgerðin mun ákveða næstu skref í fullu samráði við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum.

 

Einar Valur Kristjánsson

famkvæmdarstjóri

fimmtudagurinn 4. júní 2020

Langþráð fiskeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi

Háafell ehf fékk í byrjun mánaðar afhent starfs og rekstrarleyfi fyrir framleiðslu á regnbogasilungi og þorski í Ísafjarðardjúpi með hámarkslífmassa uppá 7.000 tonn. Þetta er langþráð stund því leyfismál í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi hafa gengið afar hægt á undanförnum árum.

Háafell hefur stundað fiskeldi á þorski og regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi frá árinu 2002. Í lok árs 2011 var tilkynning send til stjórnvalda vegna stækkunar á fyrri leyfum uppí 7.000 tonna framleiðslu á regnbogasilungi, laxi og þorski. Allar götur síðan, eða í tæplega 9 ár, hefur umsóknarferlið staðið yfir og verið vægast sagt hlykkjótt. Allan tíman hefur þó verið full framleiðsla í seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri og í vetur voru gefin út rýmri starfs og rekstrarleyfi þar fyrir allt að 800 tonna framleiðslu.

Það er því mjög ánægjulegt að þessum áfanga sé náð með útgáfu leyfa, bæði fyrir Nauteyri og nú í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Enn á þó eftir að afgreiða laxeldisumsókn Háafells í ljósi nýs áhættumats fyrir Ísafjarðardjúp en vonir standa til að hún klárist á næstunni.

Í lok júní er gert ráð fyrir því að setja fyrsta árgang af regnbogasilungsseiðum, frá seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri, í sjókvíar í Álftafirði. Þar með hefst nýr kafli í sögu fiskeldis við Ísafjarðardjúp.

 

miðvikudagurinn 1. apríl 2020

Aflasælir bræður

Snemma sunnudagsmorguninn 29. mars komu togararnir Páll Pálsson ÍS 102 og Júlíus Geirmundsson ÍS 270 til hafnar á Ísafirði og bæði skipin með góðan afla   Páll með um 90 tonn af þorski eftir stutta veiðiferð á miðin fyrir Norðurlandi. Júlíus með góðan afla að verðmæti 260 milljónir króna  eftir 30 daga  veiðiferð og millilöndun í Reykjavík.  Það er sérstakt í þessu tilfelli  að skipstjórar  skipanna að þessu sinni voru bræðurnir Skarphéðinn Gíslason á Páli og Njáll Flóki Gíslason á Júlíusi. 

mánudagurinn 30. mars 2020

Hafsjór af hugmyndum.

HG er þáttakandi í nýsköpunarkeppninni Hafsjór af hugmyndum sem Sjávarútvegsklasi Vestfjarða stendur fyrir.  Markmiðið er að hvetja frumkvöðla, fyrirtæki og nemendur til nýsköpunar sem leitt getur af sér ný störf og aukinn virðisauka sjávarfangs á Vestfjörðum. Athygli er vakin á því að verkefnið er ekkert síður opið til styrktar lokaverkefna nema á háskólastigi. Vestfjarðastofa heldur utan um verkefnið fyrir hönd sjávarútvegsklasa Vestfjarða en verkefnið fékk einnig styrk frá Uppbyggingasjóði sem er hluti af Sóknaráætlun.

Frekari upplýsingar er að finna á hér.

Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. rekur fiskvinnslu í Hnífsdal, lifrarvinnslu í Súðavík, gerir út tvo isfirsktogara og frystitogara, rækjubáta og er með fiskeldisstarfsemi.

Hér að  neðan er kynningarmyndband af starfsemi HG: